Monday, September 29, 2008

Góðveðursblíða

Það virðist sem sumarið hefur ákveðið að koma seint til London því á mínum mælikvarða er það veður sem er hér ekkert annað en sumar með laufin að falla. það er sól hér dag eftir dag en þessu hlýtur að ljúka eins og öllu öðru og regnhlífin mun væntanlega koma sér að góðum notum. Ég hef lítið þurft að nota regnhlífina mína nema auðvitað þegar það koma að stóra Londondeginum þar sem var arkað á milli merkisstaða og þá ákvað veðurguðinn að kominn væri tími á úrhelli, maður var votur og þreyttur eftir þá göngu.

Ég fór á föstudaginn síðasta á tvær leiksýningar, þetta voru lokaverk þeirra sem voru að útskrifast með MA í leikstjórn. Fyrra verkið hét Monster og var einleikur, leikarinn þurfti að leika að mig minnir 7 persónur. Leikarinn stóð sig vel þetta kvöld, náði vel til manns en leikritið fjallar um strák sem drepur pabba sinn og var hreint út sagt frekar ógeðslegt. Seinna leikrit kvöldsins var í leikstjórn Bjartmars Þórðarsonar sem var einmitt dansstjóri þegar ég setti upp Cry Baby og Thank you for the music. Leikritið sem hann leikstýrði heitir Mr. Kolbert og er svört kómedía eiginlega, semí splatter verk. Sýningin hans var æðisleg, ótrúlega fyndin leikarnir voru með fullkomna tímasetningar, náðu til manns hvort sem var þegar um var að ræða brandara eða með mjög dramatískri senu. Ég vona bara að Bjartmar sýni þetta heima því þetta verk er alveg eitthvað sem Íslendingar myndu fíla.

Á laugardaginn fór ég í stærstu verlsunarmiðstöð Evrópu og heitir bluewater að utan lítur þetta meira út eins og geimstöð eða flugstöð en þetta er flott verslunarmiðstöð með öllum þeim verslunum sem nokkurn gæti vantað. Það sem var nú skrýtnast við þessa ferð var að á leiðinni þangað var ég í strætó í svona klukkutíma og tíu mínútur en á leiðinni heim var ég bara í svona tuttugu mínútur, skil ekki enn þá hvernig það virkar en ég hafði keypt mér Marie Claire til að lesa á leiðinni heim þegar ég kláraði viðtalið við Beyoncé sá ég að ég var bara að koma heim.

Nú er byrjuð ný skólavika og í hádeginu var ég í tíma hjá konu sem er frábær en hún talar á hraða kappaksturbíls og maður er satt best að segja smá búin á því þegar maður er búinn hjá henni. Hún er að kenna mér áfanga sem heitir Event & Venus sem snýst aðalega um það sögu ýmissa leikhúsa og hvernig leikhúsið varð eins og það er í dag. Mjög áhugavert verð ég að segja.

Ég reyni að blogga fljótlega en ég á von á nokkrum heimsóknum á næstunni og þá get ég eflaust sagt einhverjar skemmtilegar sögur.

Kær kveðja
Stella

Tuesday, September 23, 2008

Long time no see

Sælir hálsar
Mér var sagt að það væri kominn tími á færslu svo hér er ég komin með eina. Ég er ekki svakalega dugleg í þessu á meðan ég er með þessu viðbjóðslegu nettengingu tekur allt tvo ár sem þarf að gera.

Jæja en síðustu dagar hafa verið fínir, á föstudaginn hitti ég hópinn sem ég mun vera að vinna verkefnið mikla með og þau virðast vera ágæt, ég og Charlie sem er með mér í OLA erum samt aðeins að taka leadið í þessu. Fyrsta verkefni okkar er að fara víðsvegar um London borg og finna staði taka af þeim myndir og skila því svo af okkur, ég held að þetta sé liður í hópeflingu, sem er gott og blessað en við erum að tala um hátt í 20 staði á einum degi og því þarf að skipuleggja þetta ágætlega eins og við erum búnar að gera. Dagurinn okkar í London er á morgun þannig ég verð að labba frá morgni til kvölds.

Talandi um það að labba í London á laugardaginn fór ég og hitti Hreiðar Má vin minn ásamt félaga hans, þann daginn labbaði ég frá London Bridge station að Oxford street sem er ágætis ganga. Veðrið var gjörsamlega yndislegt og maður fékk nú bara smá lit meira að segja (rauðan eins og mér einni er lagið). Þennan dag verslaði ég smá inn á baðið okkar og nokkur kerti fyrir herbergið mitt.

á sunnudaginn var yndislegt veður en ég ákvað að gera þvottinn í stað þess að leggjast í sólbað sem hefði alveg verið inn í myndinni. Eftir þvottinn ákvað ég að ég þyrfti að fara út í búð og versla eitthvað að borða, en viti menn voru bara ekki búðirnar lokaðar. Gaman gaman.

Svo er komin ný vika með blóm í haga, nú er komið ekta london veður rigning og smá gola, þannig maður er örugglega með regnhlífina á sér.

Svo vil ég nota tækifærið og óska SUSurum til hamingju með að mér skillst frábært Milliþing, leiðinlegt að hafa ekki getað verið þarna og ég hafði hingað til mætt á öll frá því árið 2004. Ætli ég komi ekki næst á SUS þingið 2011... sjitturinn

Jæja best að fara að gera eitthvað í sinn haus, bið að heilsa öllum vinum og vandó
Stella

Thursday, September 18, 2008

Busadagur


Jæja nú erum átta ár síðan ég átti minn síðasta Busadag en nei nei í dag átti ég annan, ég segi ekki að hann hafi verið jafn ógnvekjandi og sá sem ég upplifði árið 2000 (guð hvað það er langt síðan) þá kom slökkvubíll reyndar og smúlaði okkur vel... Æðislegur dagur en stressið fyrir þennan eina dag var svo mikið að maður var næstum kominn með blæðandi magasár fyrir þetta. En svo var þetta bara eintóm skemmtun.


Þessi busadagur var nú allt öðruvísi, bara fullt af ræðum frá hinum og þessum stjórnandanum, svo fórum við nokkur úr OLA í lasertag keppni sem við töpuðum ekki nei nei við skíttöpuðum vorum öll dauð áður en einn af hinu liðinu dó.


Lífstíll bretans er aðeins öðruvísi en maður er vanur heima á klakanum, hér þykir ekkert eðlilegra en að fara í hádeginu að fá sér bjór, vín og jafnvel brennivín. Við fórum s.s. á pöbbin um tólf og þar fékk fólk sér ýmist vín eða bjór og ég með mitt sparkling water :) sem er frekar fyndið.


Á morgun byrja ég á frábæru verkefni (held ég) sem er þannig að nemendur á "tækni sviði" sem er minn hópur, stage manegment, light production, sound production og ég held sviðsmyndaliðið kemur saman og á að búa til atburð sem ekki má nota neitt sem er notað í leikhúsi, þ.e.a.s. ekki leikara, kastara, leikstjóra, sviðsmynd eða hljóðstöff. Ég er frekar spennt fyrir þessu, ekki bara vegna þess að þarna kynnist maður enn fleira fólki heldur þá er þetta fyrsta stóra verkefnið sem við gerum.


Á morgun fer ég líka á fund með erlendum nemum (skrýtið að vera allt í einu erlend) þar fær maður tækifæri að hitta íslendingana hina og svo auðvitað alla hina útlendingana.
En meira síðar
Stella

Wednesday, September 17, 2008

Skólinn hafinn

Jæja loksins komin með net heima hjá mér.... Thank the lord.

Fyrstu dagarnir í skólanum hafa verið mjög góðir, ég byrjaði á mánudaginn þar sem ég hitti alla sem eru með mér á braut (við erum alveg 8). Námið hljómar rosalega spennandi og ég er mjög sátt við þá ákvörðun sem ég tók um að koma hingað. Ég mun vera að læra hvernig eigi að setja upp viðburði, skrifa fréttatilkynningar, hvernig á selja vöruna sína, pr stöff, hanna vefsíður og bæklinga og hvernig á að setja upp sýningar.

Þessi vika hefur verið bara kynning á öllu því sem við munum gera en við erum nánast bara búin að vera að kynnast hvort öðru og kennurunum, og svo sjá hvað við gætum gert. Skólinn er mikið í því að vinna með hópum sem lifa við bág kjör, minnihlutahópa og öðrum hópum sem list getur hjálpað. Ég er mjög spennt fyrir því að gera eitthvað svoleiðis.

Ein stelpa sem útskrifaðist í fyrra með Organising live arts BA gerði gjörsamlega frábært verkefni sem átti sér stað í Indlandi. Hún fór með 18 krakka úr skólanum mínum minnir mig sem voru að læra ýmsa hluti til þess að kenna indverskum börnum dansa frá nokkrum heimshornum. Hún fjármagnaði verkefnið og fékk alla til að taka þátt, með þessu var hún að opna augu barna í Indlandi fyrir umheiminum og jafnframt að gera eitthvað gott fyrir börn sem kannski hafa það ekki svo gott. Þetta verkefni er mjög innblástur fyrir mann að sjá að maður getur gert svo margt með þetta nám.

Svo er gaman að segja frá því að ég er komin með einn meðleigjanda hún heitir Emma og er að fara læra European theatre arts.... en meira um það seinna.

Mig langar líka að óska Fanney Birnu innilega til hamingju með formannstitilinn, þú átt eftir að rokka feitt.

Bið að heilsa í bili...
Lov jú
Stella

Sunday, September 14, 2008

Stelpan í Bretlandi

Jæja fyrsta bloggið mitt á þessum miðli, í nýju landi og i fyrsta sinn á interneti í lest (mikið nýtt í gangi)

Eins og flestir vita þá hef ég flutt aðsetur mitt til Bretlands næstu þrjú árin eða svo og mun stunda nám í Rose Bruford College og námsbrautin mín heitir Organising live arts. Ég er svoldið að stökkva út í djúpu laugina því ég er ekki alveg viss hvernig þetta verður, en einhvern tíman á lífs leiðinni verður maður að taka sénsa og hví ekki núna?

Ég kom til Lonond á mánudaginn og þökk sé góðum vini mínum var ég með bulletproof leiðbeiningar hvernig ég ætti að komast frá Standsted til Sidcup (staðurinn sem ég bý á). Ég bý á svokölluðu dormi, þar sem ég deili íbúð með 3 ððrum sem verður vonandi í lagi. En þegar ég komst á leiðarenda komst ég að því að ég var alein þarna, sem var skrítið vægast sagt. Ég ákvað því að skella mér til Doncaster og heimsækja fjölskyldu sem ég á þar. Frá því á þriðjudaginn hef ég verið í matarboðum, heimsóknum, pöppum og að túristast eitthvað.

Núna er ég í lest á leið frá Doncaster til London.

Ég ætla að reyna að blogga hér sem oftast en ég er reyndar ekki komin með net enn þá.

Hlakka til að heyra í ykkur öllum
Ykkar
Stella