Thursday, November 27, 2008

Styttist rosalega í heimför

Kæru vinir í dag er 27 desember og ég mun fljúga heim 6. des trúið þið þessu? Tíminn flýgur greinilega. Ég ákvað að henda inn smá línum meðan ég borða dýrindis "allt sem er til í ísskápnum pasta" með Kók zero í dós og gömul jólalög á fóninum.

Lítið hefur verið í gangi hjá mér undanfarið en skóli, lítið annað komist að. Í fyrramálið mun ég fara með 10 mínútna fyrirlestur sem vonandi gengur vel og svo á laugardaginn verða lítil jól hér í Íbúð 27. við ætlum að vera með leynivinaleik, elda eitthvað ljúffengt (ef ekki ljúffengt þá eitthvað breskt sem er auðvitað viðbjóður) fyndið hvað bragðleikar fólks eru mismunandi eftir því hvar þeir byrja að borða.

En í þessari viku er ég búin að tryggja mér nokkur verkefni, ég mun hjálpa einum strák á þriðja ári að framleiða nokkrar sýningar en hann er einmitt að vinna með manni að nafni Chris Grady en hann var í mörg mörg ár aðalmaður Cameron Mackingtosh en hann er aðalmaðurinn í söngleikjabransanum og svo mun ég væntanlega sjá um eitthvað íslendingadót í einni svona öðruvísi viku í skólanum (það er reyndar ekki komið á hreint). Svo er ég búin að vera í mjög skemmtilegum tímum um allt milli himins og jarðar þannig að lífið hefur verið gott.

Ég ætla bara svo að senda smá skilaboð hér sem þið megið endilega koma út í samfélagið ef þið viljið... Nú vita allir af þessum svokölluðu mótmælum sem áttu sér stað fyrir utan lögreglustöð í Reykjavík, það vita líka flestir að þetta komst í heimsfréttir. Það að mótmæla er réttur hvers og eins einstaklings og mun ég aldrei standa í vegi fyrir neinum sem vill mótmæla einhverju sem honum finnst ekki rétt, ég hef sjálf mótmælt og því mun ég ekki gagnrýna aðra sem gera það. Ég vil bara ekki kalla það sem átti sér stað fyrir utan lögreglustöðina mótmæli þetta voru skrílslæti og ekkert annað, það að segja að lögreglan eigi ekki rétt á því að spreyja táragasi á hóp fólks sem var að brjótast inn á þeirra vinnustað er bara rangt. Mig hefði langað að sjá hvað þetta sama fólk hefði sagt ef 200 manns hefðu reynt að brjótast inn á þeirra vinnustað, þeir hefðu líklegast kallað til lögregluna og ætlast til þess að hún gerði eitthvað í málinu. Mér finnst ólýðandi að fólki finnst þetta bara allt í lagi að brjótast inn á löggustöð, mér finnst líka óþolandi að fjölmiðlar hafi gert svona mikið mál úr þessu og maður þurfi að útskýra fyrir útlendingum hvað sé núna í gangi á Íslandi. Ég þurfti að útskýra þetta aðeins í skólanum og þar benti ég á það að þetta fólk má bara vera fegið að það búi á Íslandi því ef þeir hefðu verið að gera þetta í þessu landi eða USA þá hefði væntanlega verið sérsveitin og skotið á líðinn. Þetta lið sem lætur svona heima er að alveg að fara með mig, þetta mun ekki hjálpa Íslandi nokkuð, þetta mun ekki bæta neitt ástandið.

En ég er sko annars hress bara þoli ekki svona skrílslæti.

Ykkar
Stella

Saturday, November 22, 2008

Malt og appelsín er alltaf best

Jæja tvær vikur í mig á klakan, ótrúlegt hvað þessi tími hefur flogið frá manni, finnst eins og það hafi verið í gær sem ég var að bera töskurnar mínar á milli lestarstöðva og rata heim til mín.
En jæja hvað um það, ég sit hér heima hjá mér og sötra malt og appelsín þökk sé Svanhvíti, það var vel pakkað inn í plastfilmu og plastpoka. svo gæddi ég mér á íslensku nammi sem mamma sendi mér í dag. Íslenskt já takk! Það sem er nú samt skrýtið við þetta allt saman er að bretum finnst þetta ekki gott, lakkrís er ekki þeirra tebolli og þeim finnst þetta allt voða skrýtið.

Margt skemmtilegt hefur verið í gangi hjá mér upp á síðkastið, Svanhvít, Arndís og Elva voru auðvitað í heimsókn hérna og það var algjört æði, Svanhvít og Arndís gistu hjá mér síðustu nóttina og það fór nú bara ágætlega um okkur þrjár í herberginu mínu. Við náðum að gera fullt, versla, borða, kíkja í Camden (sem var smá erfitt fyrir mig því ég viltist smá sem á ekki að vera hægt) fórum á Borough market sem er frægasti matarmarkaður í heimi held ég (hann er æði) svo löbbuðum við fullt. Það var gaman að fá þær skvísur og ég hlakka bara til að fá næsta fólk í heimsókn.

En svo hafa síðustu dagar verið fullir af skóla og skemmtun, ég ákvað að vera rosalega góð og bauðst til að vinna auka í leikhúsi skólans við leiksýninguna Summer and smoke og ég var sætisvísa aftur sem er alveg fínt ég ætla ekkert að leggja þetta fyrir mig en þetta er alveg ágætt. Svo er skólinn búinn að vera á fullu enda bara tvær vikur eftir og framundan eru tvö skilaverkefni annað er fyrirlestur um verkefni sem ég gerði fyrir löngu síðan og hitt er hönnunarmappa með plögutum sem ég hef verið að hanna, svo er ég líka að vera sætisvísa aftur síðustu tvo dagana í skólanum þannig að næstu tvær vikur verða þéttskipaðar.

Í gærkvöldi fór ég og Sarah sem er með mér í skólanum inn í London og byrjuðum kvöldið með því að fá okkur að borða á Chiquita og var maturinn bara ágætur. En nafn staðarins átti betur við en ég gerði mér grein fyrir í gær því við fórum á Mamma Mia. Sýningin er auðvitað algjör snilld, ég held að það sé engin önnur sýning sem nái áhorfendum svona vel, fólk syngur og dansar og iðar allt í sætunum sínum því þeim langar svo að hoppa upp á svið og dansa með. Ég var svo heppin að það voru vinir vinkonu minnar sem býr hérna úti sem hættu við að koma til London en voru búnir að kaupa miða á sýninguna og ég fékk þá á hálfvirði, ég vissi ekki þegar ég keypti miðana að ég væri á fremsta bekk, ég var ekki bara á fremsta bekk heldur sat ég við hliðina á tónlistarstjórnandanum. Það var æði, djöfull var þetta gaman. Svo voru ég og Sarah að skoða leikskrána og sáum að dansararnir flestir komu úr Bird college sem er bara hérna rétt hjá mér okkur fannst það svona frekar kúl en svo fékk ég sms þegar ég var á leiðinni heim frá Söruh um það að aðalleikkonan var úr skólanum okkar. Sýningin var mun betri en þegar ég sá hana árið 2006 held ég, leikarnir voru mun betri núna ég dó næstum úr hlátri í nokkrum senum, þetta verk er bara hrein snilld. En kvöldið endaði á aðeins verri nótum....

í lestinni á leiðinni heim sat ég við hliðina á manni sem var mjög skrýtinn hann var í fínum jakkafötum en sat mað höfuðið nánast á milli lappana og hann hélt um hausinn á sér. Ég velti mér ekki mikið upp úr því fyrr en hann var farinn að kúgast, þá ákvað ég að snúa mér í hina áttina en svo bara kom gossan og ég hljóp í burtu og fann mér annað sæti ég get ekki ælulykt ég æli þá bara. Við sætaleit mína fann ég sæti fyrir framan par sem var í miðjum samræðum fyrst um sinn var ég nánast að fara að æla en svo breyttist umræðan og var vitni að nánast sambandsslitum í lestinni, ég náði reyndar ekki endanum en ég er viss um að sambandsslit voru í uppsiglingu. Svo þegar ég er að labba úr lestinni til að ná strætó heim sé ég að minn strætó er kominn á stoppustöðina og ég ákveð að hlaupa af stað, svo heyri ég fyrir aftan mig einhver gæja segja "ekki séns" og ég bara hleyp enn hraðar og viti menn ÉG NÁÐI STRÆTÓ, djöfull var það góð tilfinning.

Jæja ég held að það sé DVD í tækið núna og svo svefn mikil vinna framundan og best að koma sér í það á morgun.
Bæ bæ
C Yahh soon

Friday, November 14, 2008

24 ár frá fæðingu Stefaníu Sigurðardóttur

Hæ hó
Jæja nú er afmælisdagurinn liðinn, hann kemur víst árlega hjá mér eins of flestum öðrum og var hann bara ansi góður í ár verð ég að segja.
Dagurinn byrjaði nú frekar erfiðlega því ég ákvað að skella mér í bað um miðnætti 14 nóvember og auðvitað byrja ég að þrífa baðið og fer þá ekki sturtu dótið í sundur þannig að yfir mitt spýtist ískalt vatn. Ég næ stjórn á kalda vatninu svo læt ég renna í baðið, held að það sé komið í lag heita vatnið þannig ég er eitthvað að dunda mér og ætla svo í baðið set tærnar ofan í og það er bara Jökulsárlón komið til Sidcup. Svo svona til að toppa þetta þá náði ég að hrasa aðeins í baðinu! Allt þetta gerðist á tímabilinu 00:00 til 00:30.

Svo byrjar morguninn á símhringingu klukkan og haldið ykkur nú þið sem þekkið mig eitthvað 07:22, í símanum er breskur karl og hann talar og talar og ég steinsofandi og frekar pirruð segi bara Who is this? Who is this og loksins er ég vöknuð og skil svarið hinum megin á línunni Stella it's your uncle Gretar, Happy birthday! Jæja ég talaði við Grétar frænda í smá stund og lagði mig aftur sem leiddi til þess að ég svaf verkjaraklukkuna af mér og vaknaði 09:25 og átti að mæta í skólan 10:00. Ég var sem betur fer með far í skólan þannig ég þurfti ekki að hlaupa að ná í strætó og svona. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hef sofið yfir mig síðan ég flutti hingað.

Jæja skóladagurinn var mjög skemmtilegur, ég mætti með geggjaða köku í skólan sem ég hafði keypt í Marks og Spencer á 2,49 pund á lestarstöðinni daginn áður. það voru aðeins færri í tíma en ég gerði ráð fyrir þannig ég eyddi deginum svoldið í því að reyna að koma kökunni inn á eitthvað annað fólk. Kennarinn minn hafði gert ráð fyrir því að við værum búin í skólanum svona í fyrst lagi tólf síðasta lagi tvö en svo var svo rosalegt tölvuvesen á okkur og blaður að ég kláraði ekki fyrr en klukkan fjögur minnir mig. Við eyddum deginum í það að spjalla um pólitík, tónlist og nánast allt milli himins og jarðar og já svo gerðum við víst eitthvað þema lag fyrir listaverk.

Eftir skóla lá leið mín inn á Oxford street til þess að hitta Svanhvíti, Arndísi og Elvu, þær voru í Primark sem er tjahh ein bilaðasta búð sem þú getur komið inn í, þar er allt á spotprís en það eru svo margir þar inni að ég bara verð smá biluð held ég þar inni. En þær voru blessunarlega búnar að versla þegar ég kom þannig að við kíktum í eina búð í viðbót og svo kíktum við á góðan pöbb þar sem hægt var að róa sig aðeins niður eftir amstur dagsins, og gera sig tilbúin fyrir komandi viðburð.

Næst lá leiðin í Covent garden, það er æðislegur staður sem ég hef greinilega ekki verið að pæla mikið í því ég er bara búin að fara þangað einu sinni og þá í flýti en þetta er alveg rosalega sætur og notalegur staður. En í Covent garden hittum við Hreiðar vin min og við fórum saman á La Perla sem er mexikanskur veitingastaður hann er sætur og svoldinn svona partý staður. Við skemmtum okkur konunglega þar og sátum lengi vel. Svo lá leið heim en Hreiðar tók okkur í sight seeing um London að kvöldi til og við löbbuðum meðfram Thames. Óhætt er að segja að það hafi verið mjög gaman og einstakt að fá að njóta London svona á kvöldi til og sérstaklega gaman að sjá öll jólaljósin.

Svo var það að ná lestinni, síðasta lest átti að fara frá London Bridge klukkan 00:13 og þegar við komum á London Bridge er klukkan 00:13 þannig að við stelpurnar sprettum af stað og komum upp á pallinn klukkan 00:14 þannig að við misstum af lestinni. Þá var ekkert annað en að bíða eftir næturstrætó og taka hann heim, sem var svo sem allt í lagi en maður var svoldið þreyttur svona.

Ég vil þakka öllum fyrir allar yndislegu afmæliskveðjurnar og gjafirnar. Og svo þeir sem reyndu að tala við mig í síman þá bara biðst ég innilega fyrirgefningar á því að hafa ekki getað talað vegna batterísleysis.

Svo vil ég bara minna á það að það eru 3 vikur í að ég komi til Íslands.

Ykkar Stella

Sunday, November 9, 2008

Sæl og blessuð, komið að sunnudagsverkunum... skrifa hugrenninga sína hérna á þessa litlu síðu. Síðasta vika hefur verið einstaklega viðburðalítil aðallega vegna þess að ég hef verið í lestrarfríi frá skólanum og ég hef nú mest megnis eytt tíma mínum í það að sofa, horfa á Ally McBeal og já læra.
Ég er búin að brjóta allar þær jólareglur sem ég hef sett mér í gegnum tíðina, ég er byrjuð að skrifa jólakort sem er ekki reglan sem ég braut ég ákvað bara að ég ætli að skrifa þau í ár og til þess að ná að klára þau áður en ég fer heim verð ég að reyna að klára þau á næstu dögum, en ég er búin að vera að hlusta á jólalög. Ég hef alltaf haft þá reglu að hlusta ekki á jólalög fyrr en eftir afmælið mitt sem er á föstudaginn þakka ykkur fyrir. En vonum bara að þó ég hafi brotið regluna til þess að komast í jólaskap skili sér í jólakortum.
Nú eru tveir dagar í að Svanhvít, Arndís og Elva koma til London, við eigum eftir að skemmta okkur vel.
ég skrifa meira næst, það eru engar fréttir en eins og afi sagði alltaf þá eru engar fréttir góðar fréttir.
Sijú eftir minna en fjórar vikur.
Stella

Sunday, November 2, 2008

Rússneskur harmleikur?

Jæja nú er önnur vika liðin og víst best að koma með smá fréttir frá höfuðstöðvum Gordons Brown og Mr. Darling, þeir eru alveg bestu vinir mínir eins og þið eflaust vitið.... fyrirgefið ég hljóp bara aðeins frá til þess að æla.

Smá glens í svefngalsanum. Ég var að klára annað verkefni í skólanum sem snérist um það að vera í móttöku í einu leikhúsinu okkar (The Rose), ég var einn af fjórum starfsmönnum stráks á örðu ári og okkar hlutverk var að taka á móti gestunum með bros á vör, taka við miðunum þeirra, fylgjast með að enginn væri að falla í yfirlið í salnum, halda hurðunum opnum, segja bless og takk, þrífa salinn og byrja aftur á þessu daginn eftir. Ekki erfitt verk en hluti af því að kynnast öllum þeim störfum sem fara fram í leikhúsinu og ef maður ætlar að reka kannski leikhús er betra að vita hvernig allt fer fram. Sýningin sem var í gangi var The last ones, sem er rússneskur harmleikur, leikritið var þungt en fyndið á köflum. Leikararnir voru allir á þriðja ári í leiklist eða music&acting og voru þau hver öðru betra, þar á meðal var einn íslenskur strákur sem heitir Jóel og var hann rosalega góður, íslenska hjartað alltaf stolt. Sviðsmyndin af sýningunni var rosaleg verð ég að segja, alveg ótrúlega falleg ég held satt best að segja að ég hafi bara aldrei séð svona fallega sviðsmynd´, ég reyni að henda inn mynd af henni í næsta bloggi en heimasíða skólans liggur niðri sem stendur.

Ég var að vinna í leikhúsinu fimmtudag, föstudag og laugardag en á laugardaginn átti ég ekki að mæta fyrr en 6:30 þannig ég ákvað að skella mér í Bluewater (stærsta moll Evrópu) í grenjandi rigningu en ég legg af stað með nýju regnhlífina mína sem ég keypti bara á föstudeginum, ég stend hér fyrir utan húsið mitt og þegar ég reyni að opna sé ég að hún er bara handónýt. Jæja hugsa ég, ég kaupi mér þá bara þriðju regnhlífina í Bluewater. Allt í lagi svo fer ég í H&M og fjárfesti í einni enn regnhlíf, kem svo út úr Bluewater og opna fjárans regnhlífina og viti menn að hún opnast bara öfugt!!! já já það vill bara ekki gerast að ég finni regnhlíf sem virki. Ég fer svo bara aftur til Sidcup með strætónum í klukkutíma. Svo kem ég út úr strætó í fínu dúnúlpunni minni sem er með risastóra hettu þannig ég hugsa að ég nái að hlaupa upp í skóla án þess að blotna neitt mikið. Viti menn, þegar ég loksins kemst upp í skóla þá var ég blaut í gegnum fjárans úlpuna og við tók smá tími á kvennaklóssettinu undir blásarnum þar sem ég reyndi að þurrka buxurnar og bolinn. (þetta var minn rússneski harmleikur) haha en þetta var allt í lagi ég var þurr þegar gestirnir mættu.

En í dag fór ég inn í Camden town þar sem er mjög skemmtilegur markaður og ráfaði þar um og endaði víst með því að labba í sirka átta kílómetra án þess að taka eiginlega eftir því og fór svo heim þar sem ég er núna.

Næsta vika er svo Reading week hjá mér þannig ég verð bara að vinna einhver verkefni svo ég verði laus þegar Arndís og Svanhvít verða hjá mér. Svo er planið að horfa á Ally McBeal, stelpumyndir, hitta vini og bara almenn leti.

En svo er Ísland fagra eftir mánuð og 3 daga eða svo, hlakka til að sjá ykkur eftir smá...
Knús og kossar til ykkar allra
Stella